18.6.2011 | 02:16
17. júní í Ævintýralandi - mikið stuð!
Þriðji dagurinn hófst með miklum spenningi, enda bæði húllumhædagur og 17. júní.
Að vanda var ráðist á morgunverðarhlaðborðið og snætt af bestu lyst þar til allir voru orðnir pakksaddir og tilbúnir fyrir daginn ... og þvílíkur dagur.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni til að hátíðardagskráin gæti staðið samfleytt frá hádegi og langt fram á kvöldið. Grímudansleiklistin er á fullu í undirbúningi og hafa grímur þegar verið málaðar. Kvikmyndagerðin var í tökum og mikið fjör í gangi á námskeiðinu. Þetta verður spennumynd um dularfullt hús ... stelpa fer inn í það og hverfur. Annað úr handritinu er enn algjört leyndarmál þar til kemur að lokakvöldvökunni og stuttmyndin verður frumsýnd.
Grjónagrautur var í boði í hádeginu og melónur í eftirmat. Alveg sérlega góður grautur, sögðu börnin sem borðuðu heil ósköp af honum.
Síðan var haldinn hádegisfundur með umsjónarmönnunum og eftir hann var starfsfólkið með smásprell fyrir börnin.
Svo sló Árni í gegn með brúðuna Danna (sem er sjö ára, Danni sko). Danni hafði verið í ferðatöskunni í tvo daga og var orðinn nokkuð slæmur í bakinu að sögn. Árni fór á kostum með hinn bráðskemmtilega Danna sem segist vera frá Flórída.
----- ooo OOO ooo -----
Veðrið lék svo sem ekkert við okkur þrátt fyrir ágæta veðurspá fyrir Kleppjárnsreyki en börnin klæddu sig bara eftir veðrinu og haldið var út í fánaleikinn góða. Liðin Martröð og Draumur börðust um ... klemmur.
Martraðarliðið var auðkennt með blárri stríðsmálningu (ja, strikum) í andlitið og Draumaliðið með rauðum strikum. Eftir heilmikla baráttu, brjáluð hlaup og læti þá tókst Draumi að sigra, eða safnaði fleiri klemmum. Við færðum hátíðarhöldin inn þegar fór að rigna lárétt í hraðskreiðu logninu. Börnin komu inn rjóð í vöngum og voru sko alveg til í næsta atriðisem var hvorki meira né minna en ...
... kókosbolluboðhlaup. Hóparnir kepptu sín á milli og þurfti hver keppandi að borða kókosbolluna sína eins hratt og hann gæti með hendur fyrir aftan bak. Síðan hlaupa hratt til hópsins aftur og þá gat næsti tekið við að borða sína kókosbollu. Tíminn var tekinn og voru Krossfiskar langfljótasti hópurinn. Svo sem sá elsti og þar af leiðandi með stærstu munnana, sagði einn Gullfiskurinn en alls ekki tapsár. Þetta var bara skemmtilegt, fannst börnunum, og ekki amalegt að fá heila kókosbollu!
Þetta var ekki búið enn því nú var komið að sykurpúðagleypikeppni. Börnin eru afar hrifin af öllum keppnum og þar sem veðrið leyfði ekki sápukúlusprengikeppni þá var fundin upp alveg ný keppni sem sló aldeilis í gegn. Börnin köstuðu sykurpúðum (pínulitum og sætum) upp í loftið og gripu með munninum. Fljótustu börnin voru Rakel Sandra (Hafmeyjum), Kristófer (Krossfiskum) og Inga Birna (Gullfiskum).
Það var ekkert slugsað í eldhúsinu þótt allt þetta gengi á í matsalnum. Sigurjóna snillingur hafði bakað heilu stæðurnar af vöfflum undir köllum og hvatningarhrópum, og þrátt fyrir kókosbollur og sykurpúða var sko alveg pláss fyrir 17. júní vöfflur hjá börnunum. Sumarbúðirnar bjóða alltaf upp á vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma en auðvitað er sulta líka í boði fyrir þá sem vilja. Flestir kusu súkkulaðivöfflur, enda eru þær hreint út sagt dásamlega góðar.
Eftir vöffluátið var sitt af hverju í boði. Eins og skartgripagerð en hún var sérlega vinsæl af börnunum sem bjuggu til mjög fallega skartgripi. Það voru bandfléttur í hárið og keilukeppni (Wii) og svo ... kom ofboðslega skrítin spákona í heimsókn; Jósefína Potter frá Borgarnesi.
Búið var að segja börnunum að þau mættu spyrja spákonuna einnar spurningar, alls ekki tveggja eða fleiri. Þar sem sumarbúðastjórinn er prakkari bað hún einn strákinn að stríða spákonunni svolítið. Allt gekk vel til að byrja með. Stákurinn spurði hvað hann yrði þegar hann yrði stór. Spákonan sagði honum að hann yrði það sem hann langaði til að verða. Síðan laumaði stráksi út úr sér: Af hverju er himinninn blár? Og þá æpti spákonan á sumarbúðastjórann, og stráksi hljóp í burtu skellihlæjandi. Eydís Emma spurði hvernig hárið á henni yrði á fullorðinsárum og því var fljótsvarað: Þú þarft ekki að lita það fyrr en um fimmtugt og þú verður með slöngulokka þar til þú verður níræð!Þakka þér kærlega fyrir, sagði Eydís Emma alsæl. Þetta var svolítið skrítin spákona. Hún sagði við suma: Dragðu spil úr bunka mínum og legðu það á jörðina ... Sumum börnunum fannst þau hreinlega vera komin inn í Búkolluævintýri ... Flest börnin voru á því að þetta hefði örugglega verið Gummi umsjónarmaður ...
Í kvöldmat voru pylsur með tómatsósu, sinnepi og steiktum, algjörlega áframhaldandi hátíð og það var sko ekki allt búið enn.
Bíókvöld var haldið með pomp og prakt og í tilefni dagsins fengu allir poka með sælgæti til að maula með yfir sýningunni. Þetta var spennandi nammi sem Apríl okkar keypti þegar hún var í Ameríku núna í vor. Í hléinu var boðið upp á popp og Svala.
Þetta sló allt í gegn og engin aukalæti voru í gangi þrátt fyrir óvenjumikið sykurátið ... en þetta var nú einu sinni 17. júní. Þau voru bara elskuleg eins og alltaf, ánægð með allt sem þau fengu.
Tennurnar voru burstaðar vel og vandlega undir svefninn, kvöldsagan lesin og Elísa næturvörður tók við.
Þetta var einstaklega skemmtilegur og góður dagur.
Myndir eru komnar inn á sumarbudir.is - tímabil 2 - dagur 3.
Bestu þjóðhátíðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2011 | 12:58
Skríkt, hlegið og hlaupið
Þegar börnin vöknuðu á degi 2 beið þeirra enginn venjulegur morgunverður þegar þau skottuðust klædd og komin á ról inn í matsal.
Nei, þetta var þetta líka fína hlaðborð þar sem hægt var að velja um kornflakes, súrmjólk, cheerios, hafragraut og ristað brauð með osti og marmelaði (heimagerðu).
Þau sem áttu erfitt með að velja á milli fengu sér bara eitthvað af öllu.
Morgunverðurinn reyndist góður orkugjafi og var mikið leikið í íþróttahúsinu, sundlauginni eða á útisvæðinu og já, nokkur fóru á fyrstu karaókíæfinguna. Það er reyndar bara heiti á æfingum fyrir Ævintýrabarkann, hina mögnuðu söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands sem haldin verður næstsíðasta kvöldið. Börnin sem taka þátt völdu sér lög til að syngja eða skipulögðu annað atriði.
Skömmu fyrir hádegismat fóru flest börnin inn á herbergin sín og svo var bara komið að hádegismatnum. Eldhúsið bauð upp á gómsæta núðlusúpu með smurðu brauði með eggjum og kæfu.
Síðan var fyrsti hádegisfundur haldinn hjá hópunum. Umsjónarmaður hvers hóps fundar með sínum börnum, tekin er staðan, farið í skemmtilega leiki og spjallað um eitthvað áhugavert.
Þá var komið að námskeiðunum. Valið fór þannig að flest börnin kusu að vera í kvikmyndagerðinni, hún er svo vinsæl ... en hin börnin vildu gera svo margt að blásið var til nýs námskeiðs sem gæti heitað grímudansleik-list ... en þau stefna að því að sýna látbragðsleikrit með grímum og dansa eitthvað flott líka, allt frumsamið að sjálfsögðu. Öll handrit (kvikmyndin plús leiklist) eru samin af börnunum sjálfum sem velja sér búninga, skipa í hlutverk og leika. Þetta eru svo miklir snillingar.
Skömmu fyrir kaffi voru reiðnámskeiðsbörnin sótt og tóku með sér nesti og nýja skó. Heldur betur spennt. Aðrir fóru í kaffi þar sem boðið var upp á sandköku og tekex með heimalöguðu marmelaði, og vo ávextir voru líka í boði.
Mikið var um að vera eftir kaffi, Spilaborgin er alltaf vinsæl, íþróttahúsið og útisvæðið, alltaf hægt að finna eitthvað nýtt. Svo var verið aðeins inni á herbergjum (sem þykir rosalega gaman).
Þá var skundað í matsal þar sem boðið var upp á steiktan fisk, hrísgrjón og karrísósu. Tómatsósu fyrir þá sem vildu það frekar. Þetta rann vel niður í sísvanga mallakútana ... og svo var bara æsispennandi kvöldið fram undan ... úúú
Kvöldið hófst á tryllingslega spennandi brennókeppni í íþróttahúsinu. Staðan var svo jöfn þegar þurfti að hætta að það verður úrslitaleikur síðar á milli Gullfiska og Hafmeyja!
Svo var komið að því ... draugaleiknum sjálfum, sem við köllum reyndar draugaleikrit vegna yngri barnanna svo að þau verði ekki hrædd. En mikið fannst þeim öllum þetta spennandi og það var sko mikið skrækt og hlegið. Þetta er nokkurs konar hraðakeppni þar sem börn hvers hóps velja sér fulltrúa sem þurfa að ganga í gegnum miklar mannraunir (eða þannig), hlaupa í gegnum dimmt herbergi (reykvél í gangi, draugaleg tónlist og mögulega draugar undir hverju borði) vinna ákveðið verk þar á miklum hraða og hlaupa svo hratt út. Og þvílíkar hetjur þarna. Svo þegar Hafmeyjarnar voru búnar að setja met í hraða (og hlátri) komu draugarnir fram, hneigðu sig og tóku af sér grímurnar. Þetta var svoooo spennandi.
Eftir allan þennan hlátur, hlaup, skræki og skemmtilegheit var boðið upp á smurt brauð og safa svo að enginn færi nú svangur í bólið. Umsjónarmennirnir lásu kvöldsöguna fyrir hópinn sinn og innan tíðar voru allir komnir í ró. Ekki mikið annríki hjá næturverðinum.
Myndirnar eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Tímabil 2 - dagur 2.
Við sendum okkar allra bestu stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Næst: Allt um 17. júní-hátíðahöldin hjá Ævintýralandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2011 | 18:56
Fyrsti dagur - frábær dagur
Nýr og afar hress og glaður hópur barna kom í sumarbúðirnar í gær með sumarbúðarútunni.
Farangurinn var settur inn á herbergin og fékk að bíða í smástund því nú mátti engan tíma missa ... það þurfti að skoða húsakynnin, umhverfið, kynnast og hvaðeina sem tilheyrir.
Þorvaldur Máni sem var að koma til okkar í þriðja sinn átti afmæli, varð tíu ára, fékk aldeilis veisluna og ekki amalegt að byrja sumarbúðadvölina með trompi, eða afmælistertu, og fá fullt af skemmtilegum afmælisgestum. Hann fékk afmælisgjöf og -kort frá sumarbúðunum, það var sungið fyrir hann að sjálfsögðu svo glumdi í öllum Borgarfirðinum og tók undir í fjöllunum. Já, svona nánast. Einnig var boðið upp á melónur í kaffitímanum.
Úti í íþróttahúsi fór síðan fram kynning á starfsmönnum og þeim námskeiðum sem verða í boði allt tímabilið, í tvo tíma á dag. Grímugerð, leiklist, myndlist, kvikmyndagerð, dans og íþróttir. Afrakstur námskeiðanna er svo sýndur á lokakvöldvökunni. Mörg spennandi kvöld fram að því, eins og mun koma fram á þessu hirðbloggi Ævintýralands.
Starfsfólkið kynnti sig líka fyrir hópnum og svo völdu börnin sér áleggstegund á brauðið í kvöldkaffinu, ásamt safa. Til skiptis er boðið upp á smurt brauð og ávexti fyrir svefninn. Það er svo mikið að gera á kvöldin að staðgóður kvöldverðurinn dugir ekki, það verður að bjóða upp á kvöldkaffi til að allir sofni sælir og glaðir, já, og saddir.
Síðan var hægt að velja um að vera á útisvæðinu, í Spilaborg og íþróttahúsinu. Trampólínin á útisvæðinu eru sérlega vinsæl en einnig eru rólur, vegasalt, stétt til að kríta á og fleira. Í íþróttahúsinu eru mjög spennandi leiktæki, dýnur, hopp-trampólín til að geta stokkið hátt yfir á dýnur, boltar og margt, margt fleira. Spilaborg er svo bara frábær staður. Fjöldi bóka, blaða, leikfanga, spila og púsla, svo er þar einnig fótboltaspil, pool-borð og borðtennisborð með meiru. Auðvelt að finna eitthvað við sitt hæfi og æðislegt að geta valið sér afþreyingu og geta svo farið á milli svæða.
Í kvöldmatinn var kjöt og spagettí. Það vakti heilmikla lukku og þarna voru krakkarnir fyrst að kynnast snilldareldamennsku Ævintýra-Sigurjónu og bíði þau bara - þetta var bara rétt byrjunin.
Eftir kvöldmat var farið í sund og það var ekki bara hægt að synda, heldur líka að sitja í heitum potti sem er heldur betur notalegt.
Ávextir voru maulaðir í kvöldkaffinu og svo var farið að hátta og bursta tennur. Umsjónarmenn hópanna sögðu hver sínum hópi skemmtilega kvöldsögu, eða fyrsta hluta framhaldssögu. Síðan tók næturvörðurinn við, hún Elísa.
Fyrsti dagurinn liðinn og var svona líka frábær.
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is, tímabil 2, dagur 1.
Bless í bili frá Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2011 | 11:22
Glæsileg lokakvöldvaka
Laumulegasti og dularfyllsti dagur tímabilsins rann upp og enginn tók eftir því hvort hann væri sólbjartur og sætur - alvaran var tekin við, ja, eða kannski ekki, það var svo mikið hlegið og pískrað um kvöld hinnar miklu lokakvöldvöku. Hvernig leikrit skyldi grímugerð/leiklist sýna? Ætli sé varið í þessa mynd hjá kvikmyndahópnum? Hvað gerir íþróttahópurinn í kvöld? Hver hópur þagði vel og vandlega yfir atriði sínu og fékk enginn utanaðkomandi að vita neitt, oss skyldi komið á óvart ...
Eftir viðkomu hjá hlaðborðinu góða sem hleður börn orku fram að hádegi var haldið á námskeiðin. Það þurfti sko að ljúka við að æfa og fínisera fyrir stóra kvöldið.
Það var rétt svo að börnin gæfu sér tíma til að háma í sig góða skyrið og girnilega smurða brauðið sem var í hádeginu, svo mikið var að gera - en það var nú samt gott að taka smápásu frá öllu atinu.
Eftir matinn var farið í að pakka niður til að allt yrði tilbúið næsta morgun og bara rétt því allra síðasta bætt við á brottfarardeginum. Umsjónarmennirnir hjálpuðu til svo þetta tók ekki langan tíma. Börnin höfðu líka gengið vel um farangur sinn alla dagana sem flýtti nú heldur betur fyrir.
Svo var farið í auglýsingagerð. Það þurfti að auglýsa leikritið og það þurfti að auglýsa stórmyndina um kvöldið og sýningu íþróttahópsins. Afrakstur þrotlausrar (ja, og skemmtunar) vinnu síðustu daga var í þann veginn að koma í ljós. Mikið hlökkuðum við til kvöldsins! Plaköt voru hengd upp um allt hús og það jók bara á spennuna.
Ellefu ára afmæli Þórunnar Guðlaugar var á heimferðardeginum svo ákveðið var að halda upp á það deginum áður og slegið var upp veislu fyrir hana í kaffinu. Gummi umsjónarmaður og gítarsnillingur mætti með gítarinn og allir sungu afmælissönginn. Hún fékk gjöf frá sumarbúðunum (skrautlega táslusokka), heil sex afmæliskort, þar af fimm frá Hafmeyjunum, hópnum sínum, og svo var hún reyndar
vakin að morgni afmælisdagsins með söng og annarri gjöf. Þórunn Guðlaug fékk sérskreytta afmæliskökusneið og auðvitað fengu allir afmælisgestirnir köku líka, annað hvort væri það nú! Í afmæliskaffinu var líka boðið upp á tekex með marmelaði og ávexti. Það er ótrúlega gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum!
Eftir kaffið var ýmislegt bardúsað. Sum börnin fóru út í íþróttahús að leika sér, voru á útisvæðinu eða í Spilaborg. Svo var hin vikulega ruslatínsla haldin ... þau börn sem vilja taka þátt í að gera allt fínt í kringum húsið fá ruslapoka og tína upp allt það rusl sem þau finna, laufblöð, bréfsnifsi og slíkt, stéttin var líka sópuð og svo þegar allt var orðið fínt mátti velja sér verðlaun úr sérstökum verðlaunakassa sem geymir margt ógurlega spennandi. Eins og til dæmis flotta blýanta, strokleður og hvaðeina sem mun nú aldeilis koma sér vel í skólanum næsta vetur.
Vel fyrir kvöldmat fóru börnin svo inn á herbergin til að klæðast sínu fínasta pússi. Nú skyldu allir vera fínir fyrir hátíðarkvöldverðinn og stóra kvöldið sjálft. Í matinn voru hamborgarar, franskar, sósa og gos, og enginn kvartaði yfir þeirri dýrð. Hátíðleg stemning ríkti og mikil tilhlökkun var í gangi.
Svo var komið að því ...lokakvöldvökunni sjálfri.
Grímugerð/leiklist sýndi leikritið Hetturnar tvær. Það fjallaði um tvær mjög samrýndar systur og stóra bangsann þeirra sem elti þær um allt. Skyndilega komu draugar og hræddu þær, eltu svo að þær villtust af leið en þær voru á leið til ömmu með körfu fulla af góðgæti. Þær gengu fram á indjánahóp og náðu að bjarga tveimur grátandi stelpum sem indjánarnir ætluðu að borða af því að stelpurnar voru svo leiðinlegar, héldu indjánarnir. Hetturnar tvær björguðu stelpunum og lásu yfir indjánunum, sögðu að aldrei skyldi dæma fyrirfram, heldur gefa öllum tækifæri. Síðan var slegið upp balli og dansað fram á nótt. Spiderman mætti auðvitað á þetta ball. Börnin sömdu handritið sjálf, skipuðu í hlutverk, æfðu og léku svo af mikilli snilld. Þetta var bráðskemmtilegt, eiginlega gjörsamlega frábært leikrit hjá þeim! Fagnaðarlátunum ætlaði seint að linna.
Íþróttahópurinn sýndi mjög skemmtilegan íþróttadans sem var alveg einstaklega flottur, einnig ýmis rosalega glæsileg fimleikastökk. Mikil tilþrif, mikið klappað fyrir þeim, bara æði!!!
Starfsfólkið sýndi leikritið Búkollu og það var mikið hlegið ... starfsmenn draga miða úr hatti sem segir þeim hvaða hlutverk þeir eigi að leika og svo er vaðið í þetta, undirbúningslaust en hrikalega fyndið, fannst börnunum.
Stórmyndin Hús dauðans var sýnd síðast á dagskránni. Hún fjallaði um nokkra krakka, suma með gelgjuna á hreinu, aðra megatöffara. Í fótboltaleik einum lenti boltinn óvart í gegnum rúðu á draugahúsi en fyrir tíu árum hafði barn farið þangað inn til að sækja bolta ... en ekki sést síðan. Klara töffari trúði engu svona draugabulli, fór inn um gluggann og hvarf ... Tveimur dögum síðar fóru börnin að leita en hurfu hvert af öðru. Hringt var í spæjarana Simma og Jóa sem komu fljúgandi en ekkert gekk. Það var ekki fyrr en Andri megatöffari ásamt sjóræningjanum redduaði málunum, hentu út draugum og nornum og björguðu börnunum. Mjög fyndin, spennandi og skemmtileg mynd, gerð eftir handriti barnanna sjálfra, að vanda.
Ávextir voru í boði í kvöldkaffinnu. Já, og svo var boðið upp á frostpinna á meðan horft var á bíómyndina.
Það var ekkert mjög auðvelt að sofna síðasta kvöldið, eftir allt þetta fjör þurfti mikið að spjalla um ævintýri kvöldsins. Þetta var svo skemmtilegt. Börnin hlökkuðu líka mikið til að fara heim og hitta fólkið sitt. Það var t.d. kisa sem beið án efa spennt eftir hálsmeninu sínu sem eigandinn hafði gert í skartgripagerðinni á húllumhædeginum og kerti sem þurfti að sýna og sitt af hverju annað. Umræðuefni langt fram á næsta vetur ...
En loks sigraði svefninn, síðan vaknað til að klára að pakka því allra, allra síðasta, svo rútan, eða pabbi og mamma á bíl, jafnvel afi og amma.
Við þökkum þessum frábæru börnum innilega fyrir skemmtilega viku. Sjáumst næsta sumar!
Myndirnar eru komnar inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, tímabil 1, dagur 6.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2011 | 02:09
Ævintýrabarkinn!
Enn einn frábæri dagurinn í sumarbúðunum var í dag. Hann hófst með morgunverði af betri gerðinni, eða hlaðborðinu góða ... hafragrautur, cheerios, kornflakes, súrmjólk og ristað brauð með áleggi, einnig óristað brauð, bara eins og hver og einn vildi hafa það ... bara æði.
Einn gesturinn okkar var lasinn sl. nótt og nokkuð slappur í dag en eftir að hafa lagt sig til að láta sér batna, eins og hann orðaði það, kom hann allur til. Hann vildi sko klára að leika í stuttmyndinni og vera með á lokakvöldvökunni. Algjör hetja.
Flestir skelltu sér í sund fyrir hádegi eða sturtu, allir vildu vera tandurhreinir, enda stórt kvöld fram undan, eða Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin sjálf! Keppendurnir fóru í smástund í sund en flýttur sér svo á æfingu hjá Gumma. Tramólínin voru vinsæl á útisvæðinu, sumir vildu helst hoppa þar allan daginn, íþróttahúsið var líka vinsælt. Þetta var grænn dagur svo að flestir reyndu að finna sér eitthvað grænt til að vera í.
Í hádeginu bauð eldhús snilldarinnar upp á pasta og hvítlauksbrauð. Sigurjóna bakaði reyndar risastórar hvítlauksbollur sem börnin kunnu svoooo vel að meta.
Hádegisfundirnir voru fjörugir að vanda og umræðuefnið á þeim var hvað það skiptir miklu máli að trúa á sjálfan sig og eigin getur. Mikið spjallað, farið í leiki og svo var hlegið út í eitt. Fyndnir umsjónarmenn + rosalega skemmtilegir krakkar = brjálað fjör.
Námskeiðin gengu vel og í kaffinu var kaka, ásamt melónum og afgangsvöfflum frá gærdeginum.
Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem heil sippukeppni var haldin. Tinna Dröfn sippaði hraðast
Einnig var húllakeppni þar sem Ólavía Guðrún sýndi sérlega góð tilþrif ... og sigraði.
Mikið var um að vera eftir kaffi, leikir og á útisvæði og í íþrótthúsi, reiðnámskeiðsbörnin fóru á sitt námskeið og var myndavélin með í för. Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin sín til að skipta um föt og gera sig fín fyrir kvöldið.
Í kvöldmat bauð gúrmei-eldhúsið upp á fisk, hrísgrjón, karrísósu (sem er ævintýrasósa a la Sigurjóna) og einnig tómatsósu fyrir þau sem vildu.
Þá var bara komið að því, sjálfri keppninni, Ævintýrabarkanum ... trommusláttur ...
Dómnefnd var falið það vandasama hlutverk að velja þrjú bestu atriðin.
Þátttakendur voru:
1. Birgitta Dervic og Ólöf Jóna sem sungu Justin Bieber-lagið Baby.
2. Ólavía Guðrún sem söng lagið Ást (Ragnheiður Gröndal)
3. Adela Dervic sem söng lagið Hlið við hlið (Friðrik Dór)
4. Guðfríður Selma og Ísabella Gná sungu Bíóstjarnan mín (Jóhanna Guðrún)
5. Rósa Signý og Tinna Dröfn sungu lagið Someone like you (Adele)
6. Rósa Signý söng Lazy Song.
7. Guðfríður Selma, Ísabella, Rósa Signý, Tinna Dröfn og Unnur Eva dönsuðu Skinkudansinn, tik, tok skinka ...
Öllum var rosalega vel fagnað, enda atriðin hvert öðru betra. Aumingja dómnefndin að þurfa að velja þrjú þau bestu af sjö æðislegum atriðum. En það tókst að lokum og þessir þrír þátttakendur komust á verðlaunapall (allir fengu viðurkenningarskjöl).
1. sæti: Ólavía Guðrún (Ást)
2. sæti: Rósa Signý og Tinna Dröfn (Someone like you)
3. sæti: Birgitta Dervic og Ólöf Jóna (Baby)
Til hamingju, allir þátttakendur!
Þetta var mikil og góð skemmtun og á eftir fóru allir í matsalinn í kvöldkaffi, á boðstólum var smurt brauð og safi.
Svo var það bara kvöldsagan eftir háttun og burstun og allir sofnuðu sáttir og glaðir.
Okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Nýjar myndir af ævintýrum dagsins:.
www.sumarbudir.is/myndir/ tímabil 1 og dagur 5.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2011 | 01:50
Meiriháttar húllumhæ!
Húllumhæ-dagurinn rann upp bjartur og fagur. Sumarið hélt innreið sína í tilefni dagsins.
Námskeiðin sem eru venjulega á dagskrá kl. 14-16 voru færð fyrir hádegi til að hægt væri að húllumhæ-ast samfleytt frá hádegi og langt fram á kvöld. Og eftir að hafa snætt dásamlegan morgunverð var haldið á námskeiðin. Allt gengur afar vel á þeim vígstöðvum. Við reyndum að forvitnast um nafnið á stuttmyndinni sem er í smíðum en ... þögn fram á mánudag, takk fyrir. Álíka dularfull voru börnin í leiklist/grímugerð. Kannski skiljanlegt, þetta á auðvitað að koma á óvart á lokakvöldvökunni og verður allt verður upplýst í lokabloggi tímabilsins.
Í hádeginu var grjónagrautur með kanil og mjólk og melónur í eftirmat. Grjónagrautur klikkar ekki og börnin voru sammála um það.
Þá var bara komið að því ...húllumhæ-dagurinn var settur formlega með pomp og prakt. Starfsfólkið var í skrautlegum búningum og lék á als oddi, svona aðeins meira en venjulega.
Æsispennandi fánaleikur fór af stað og var börnunum skipt í liðin Draum og Martröð. Síðan var barist upp á klemmur og aftur klemmur og svo fór að harðskeyttara liðið, Martröð, sigraði. En það var mjótt á munum.
Á útisvæðinu ríkti hátíðarstemning og meðal annars fór fram sápukúlusprengikeppni. Þau börn sem náðu að sprengja sem flestar sápukúlurnar fengu verðlaun og það var sko klappað hratt. Að vanda fengum við dómara frá NASA sem notaðist við gervitungl fyrir ofan Kleppjárnsreyki ... eða nánast. Haukfrán augu dómaranna skáru úr um sigurvegarann, eða sigurvegarana, þar sem þeir voru tveir ... Tinna Björk og Þorgerður Katrín. Þær náðu hvor um sig eitthvað um 1543 sápukúlum á einni mínútu. Við erum með tvær vélar sem spýta út sér sápukúlum á ljóshraða.
Haldið var áfram með bandflétturnar í hár og svo var bara allt í einu komið kaffi. Ef þetta væru ekki svona vel uppalin börn í sumarbúðunum hefðu þau eflaust hlaupið með lekandi munnvatnið inn í matsal þar sem ilmurinn var svo góður - eða ilmur af nýbökuðum vöfflum. Við bjóðum auðvitað upp á hefðbundna sultu og svo þeyttan rjóma en sumarbúðavöfflurnar sjálfar eru, og hafa verið í gegnum öll árin, með súkkulaðiglassúr á, ásamt rjóma, en það er nánast óbærilega gott. Langflest börnin kusu slíkar vöfflur og sum sögðu að þetta væri nánast eins og bolludagur væri runninn upp (glassúr- og rjómatenging).
Húllumhædagurinn hélt áfram eftir kaffi og var sitt af hverju skemmtilegt í boði. Það var til dæmis skartgripagerð sem vakti mikla lukku og voru sýnd svo glæsileg tilþrif að þau hjá Cartier mega alveg fara að passa sig. Eitt hálsmenið, sérlega flott, var búið til handa kisu sem viðkomandi skartgripagerðarstúlka á og má kisan sú aldeilis hlakka til að fá þetta hálsmen.
Það var líka tattúgerð, líka æsispennandi wii-keppni (tölvuleikur), það voru bandfléttur og svo var útisvæðið góða opið en nóg er alltaf við að vera þar. Börnin fóru á milli og virtust skemmta sér konunglega.
Svo mætti heil spákerling á svæðið. Og eins og það séu samantekin ráð þeirra þúsunda barna sem hafa komið til okkar í gegnum tíðina ... þá ríkir meiri spenningur fyrir því að vita hver af starfsfólkinu spákonan er, það er mikilvægara en það sem hún segir. Mikið var spekúlerað og flestir komust að því að þetta væri hún Apríl sem var hvergi sjáanleg en ætlaði víst í afmæli til ömmu sinnar í Borgarnesi. Við sögðum að þetta væri hún Jósefína Potter, virðuleg spákerla frá Borgarnesi sem sérhæfði sig í því að koma í Ævintýraland einu sinni í viku yfir sumartímann. Börnin fussuðu og hlógu, þetta væri sko hún Apríl ... en hver sem þetta var ... þetta var ljómandi góð spákona sem sagði sitt af hverju fallegt, að þeim ætti eftir að ganga svo vel í skólanum næsta vetur, að þau væru svo góð ... og allt í þeim dúr. Já, hún Apr Jósefína sló alveg í gegn.
Þessi dýrðardagur átti enn eftir að koma á óvart - enn og aftur var það elsku Sigurjóna og hinir snillingarnir í eldhúsinu sem höfðu tekið sig til og grillað pylsur á meðan börnin léku sér, ég legg ekki meira á ykkur ... og nú hófst mergjað pyslupartí með tómat, sinnepi og steiktum, svei mér ef var ekki remúlaði líka. Hvað er eiginlega með þessar sumarbúðir og uppáhaldsmat barna? Ja, við vitum svo sem fullvel að svöng börn skemmta sér ekki jafnvel í sumarbúðum og þau börn sem borða vel.
Dagurinn endaði svo á bíósýningu og í hléinu var að sjálfsögðu boðið upp á popp og safa, það tilheyrir algjörlega tilefninu. Það fannst börnunum flott kvöldkaffi.
Þau voru sátt og alsæl eftir daginn þegar kom að háttatíma. Eftir að hafa háttað og burstað tennurnar var skriðið í koju og hlustað á kvöldsöguna þangað til augnlokin gátu hreinlega ekki meira. zzzZZZZZZZZZZZZZZZZ
Bestu húllumhækveðjur frá öllum á Kleppjárnsreykjum.
Nýjar myndir eru komnar á www.sumarbudir.is, tímabil 1, dagur 4, endalega kíkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2011 | 01:51
Kertagerð, pítsur og dúndrandi diskó
Ef fyrstu tveir dagarnir voru skemmtilegir þá var sá þriðji enn skemmtilegri. Það var svoooo mikið um að vera og svo ótrúlega gaman!
Allt hófst að vanda með morgunverði og svo fóru börnin á hinar ýmsu stöðvar sem voru í boði fyrir hádegi.
Boðið var meðal annars upp á kertagerð en hún þykir afar skemmtileg. Virðulegur sumarbúðastjórinn fer árlega inn í Hvalfjörð með enn virðulegri systur sinni til að tína bláskeljar sem eru notaðar í kertagerðinni. Skeljarnar eru fylltar af vaxi (+ kveik)sem er síðan skreytt af miklu hugmyndaflugi. Glimmer, hrísgrjón og hvaðeina.
Morgunninn leið hratt og allt í einu var komið hádegi.
Gómsæt kakósúpa með tvíbökum var í hádegismat og ávextir á eftir.
Síðan tóku hádegisfundir við með umsjónarmönnunum, en aðeins styttri en vanalega þar sem haldið var út í íþróttahús - nú skyldu börnin nefnilega fá að sjá leikrit ... og ekkert venjulegt leikrit. Þau settust niður og svo hófst ógurlega spennandi sýning þar sem Ping og Pong fóru á kostum (leikendur: starfsfólkið). Leikritið hefur mikið forvarnagildi og er stórskemmtilegt í þokkabót. Komið er inn á einelti, varað við hættunni af því að fara upp í bíl með ókunnugu fólki ... og margt, margt fleira.
Svo voru það Sing og Song, ásamt Önnu litlu sem glímdi við erfitt próf í stærðfræði. Sing peppaði hana upp á meðan Song var með úrtölur og auðvitað sigraði Sing ... Komið var inn á hætturnar á Facebook, MSN og ýmsu fleiru. Sing og Song rifust en alltaf hafði Sing betur með frábærri aðstoð barnanna í salnum sem eru greinilega vel upplýst. Alltaf samt gott að láta minna sig á!
Eftir námskeiðin og kaffitímann (namm, kaka og ávextir) var haldin hárgreiðslukeppni. Margar stelpur tóku þátt en strákarnir vildu alls ekki vera með (sem kemur stundum fyrir) - og þar sem valfrelsi ríkir í Ævintýralandi var fleira í boði en hárgreiðsla ... flest hin börnin völdu sér að fara út í íþróttahús.
Hárgreiðslukeppnin var æðisleg og misstu strákarnir mögulega af miklu ... og stelpurnar sem hoppuðu í íþróttahúsinu með þeim, eða gerðu eitthvað annað skemmtilegt.
Allar fengu hárgreiðslustelpurnar viðurkenningu og nokkur verðlaun voru líka veitt. Í fyrsta sæti voru Þórunn Guðlaug (módel) og Rósa Signý (hármeistari). Í öðru sæti: Ólöf Rún (módel) og Tinna Dröfn (hármeistari) og í því þriðja: Ísabella Gná (módel) og Unnur Eva (hármeistari). Frumlegustu hárgreiðsluna átti Ólavía Guðrún en Lýdía Hrönn var módelið hennar. Aðrar sem tóku þátt og sýndu snilldartilþrif voru: Adela, Anna Lára, Birgitta, Elísa Anna, Guðfríður Selma, Lísa Katrín, Ólöf Jóna, Rakel Sandra, Sóldís Emma, Stefanía Dís, Þorgerður Katrín og Tinna Björk.
Smám saman fór að berast sérlega góður matarilmur um húsakynnin og náði hann að lokum alla leið út í íþróttahús. Áður en hann ærði allt og alla var matsalurinn opnaður og hvílík dýrð blasti við ... PÍTSUR!!! Snillingarnir í eldhúsinu höfðu töfrað fram pítsur sem runnu sko vel niður í mallakútana og ekki var leiðinlegt að fá gos með líka.
Það voru saddir og sælir krakkar sem drifu sig á ... diskó eftir matinn. Já, þið sáuð rétt. Það var diskótek, alvörudiskótek með plötusnúð, diskóljósum, reykvél og allt! Börnin dönsuðu dátt og þegar þau fóru út úr salnum til að hvíla sig aðeins gátu þau fengið tattú og bandfléttur í hárið. Þar sem ekki náðist að húðflúra (ókei, ekki alvöru) eða flétta öll börnin sem vildu á einu kvöldi verður haldið áfram með það á morgun, en á morgun, laugardag, verður sjálfur húllumhædagurinn ... allt um hann í næstu færslu.
Þegar allir voru búnir að dansa göt á dansskóna og danskortin voru fullnýtt var haldið í kvöldkaffi þar sem ávextir voru borðaðir af góðri lyst.
Góðum og viðburðaríkum degi lokið ... og sjálfur Óli lokbrá mætti á svæðið.
Myndir eru á www.sumarbudir.is (eitthvað erfitt að setja hlekkinn inn, er í vinnslu), tímabil 1-dagur 3.
Bestu kveðjur frá okkur öllum á Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2011 | 23:59
Lúxushótel hvað!
Nýr dagur rann upp - sjálfur dagur 2 þar sem allt fór að gerast. Námskeiðin, bingó, sund, draugaleikrit og ... æ, best að byrja bara á byrjuninni.
Eftir að þessi bráðhressu og skemmtilegu börn vöknuðu í morgun í þessum dásamlegu sumarbúðum, klæddu þau sig, burstuðu tennur og allt þetta vanalega, og drifu sig í morgunverð ... og ekkert venjulegan morgunmat, heldur var heilt morgunverðarhlaðborð í boði. Lúxushótel hvað! Þeir sem áttu erfitt með að velja á milli ákváðu bara að smakka á öllu saman. Súrmjólk, kornflakes, hafragrautur, ristað brauð með osti og heimagerðu marmelaði ...
Eftir að hafa hesthúsað vænum orkuskammti fyrir morguninn var í boði að vera á útisvæði, fara í sund eða í íþróttahúsið. Einnig var fyrsta karaókíæfingin fyrir þá sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum næstsíðasta kvöldið ... það er söngvara- og hæfileikakeppni á heimsmælikvarða.
Herbergin voru síðan opnuð í hálftíma, eða fram að hádegismat. Í matinn var ógurlega góð núðlusúpa, ásamt smurðu brauði með eggjum og kæfu. Vel borðað, mikið borðað.
Börnin fóru síðan á hádegisfund með umsjónarmanni sínum, en börnunum er skipt niður í nokkra aldursskipta hópa sem hver hefur sinn umsjónarmann. Á fundunum er tekinn púlsinn á líðan barnanna, farið er í skemmtilega leiki og ekki síst er heilmikið spjallað.
Námskeiðin hófust síðan í allri sinni dýrð. Leiklistar- og grímugerðarhóparnir ákváðu að sameinast um leikrit. Börnin skrifuðu handrit og völdu búninga í búningasafni Ævintýralands sem er fjölbreytt og hefur stækkað jafnt og þétt í áranna rás. Þar kennir ýmissa grasa.
Kvikmyndagerðarhópurinn stóð einnig í ströngu við að smíða handritið að ógurlegri spennumynd sem ætlunin er að gera og spennandi að vita hver útkoman verður. Á íþróttanámskeiðinu var farið í skemmtilegan boltaleik, heimatilbúinn sem ákveðið var að láta heita Sendóapinn í miðjunni!
Rétt fyrir kaffi voru reiðnámskeiðsbörnin sótt og tóku með sér nesti og nýja skó. Myndir koma á sunnudaginn.
Svo hófst kaffitíminn ... sandkaka og tekex með heimagerðu marmelaði og svo auðvitað ávextir og nóg af þeim.
Eftir kaffi var boðið upp á bingó í Spilaborg en sumir kusu að fara frekar út í hið frábæra íþróttahús til að leika sér. Ekki vildu börnin vera á útisvæðinu þar sem lognið var á fleygiferð! Við hlökkum þeim mun meira til hitabylgjunnar á laugardaginn!
Vinningshafar í bingóinu voru: Elísa Anna (hún vann tvisvar!), Berghildur og Stefanía Dís úr Krossfiskum. Unnur Eva og Tinna Dröfn úr Hafmeyjum og Tvíburarnir Birgitta og Ísak úr Gullfiskum. Ísak hreppti aðalvinninginn, frisbídisk, blýant og kertastjaka. Hann varð svo ánægður að hann fór beint út að hoppa á trampólíninu.
Börnin voru líka inni á herbergjunum sínum (finnst það ekki leiðinlegt) undir kvöldmat en í matinn var steiktur fiskur, hrísgrjón og karrísósa, tómatsósa fyrir þau sem vildu hana frekar.
Svo varð hreinlega allt vitlaust eftir matinn. Farið var í æsilega brennókeppni í íþróttahúsinu og síðan var draugaleikurinn (leikrit) á dagskrá. Gummi umsjónarmaður lék aðaldrauginn og stóð sig frábærlega. Eftir leikinn komu draugarnir fram og hneigðu sig um leið og þeir tóku af sér grímurnar.
Sigurvegarar í brennókeppninni voru Gullfiskarnir flottu og í draugaleiknum Hafmeyjarnar knáu.
Brauð og safi voru í boði í kvöldkaffinu ... síðan var það kvöldsagan, ein fyrir hvern hóp vitanlega, og Sirrý næturvörður hafði víst lítið að gera ... allir voru svo þreyttir eftir skemmtilegan dag og sofnuðu rótt.
Nýjar myndir frá deginum er að finna á sumarbudir.is, tímabil 1, dagur 2.
Nýtt blogg og fleiri myndir frá Kleppjárnsreykjum á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2011 | 23:17
Sól með köflum ... ekki sköflum
Kleppjárnsreykir iðuðu af lífi og fjöri í dag, enda fyrsti dagur fyrsta tímabils sumarsins sem hófst milli hádegis og kaffitíma þegar fjöldi kátra krakka mætti í elsku bestu sumarbúðirnar. Flest með sumarbúðarútunni okkar frá Perlunni, en nokkur komu með einkabíl. Já, við erum byrjuð í Ævintýralandinu og hlökkum heldur betur til komandi daga og vikna.
Börnin byrjuðu á því að setja farangurinn inn á herbergin og síðan var haldið í skoðunarferð um svæðið og á kynningarfund í íþróttahúsinu. Þetta er afar góður hópur og allir sátu rólegir á meðan starfsfólkið kynnti sig og síðan þau námskeið sem í boði verða, eins og grímugerð, leiklist, myndlist, kvikmyndagerð, dans, íþróttir og ævintýranámskeið. Börnin eru á námskeiðinu í tvo tíma á dag alla vikuna og sýna síðan afraksturinn á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið. Leiklistin sýnir leikrit, kvikmyndagerðin stuttmynd, danshópurinn frumsaminn dans, myndlistarhópurinn heldur sýningu á listaverkum sínum, íþróttahópurinn sýnir flott atriði, býður jafnvel öllum krökkunum í leik o.s.frv. en allt um það þegar nær dregur.
Sirrý næturvörður fékk ýmsar skemmtilegar spurningar á kynningunni, t.d. hvort væri í lagi að skrifa í dagbókina sína á nóttunni. Það væri greinilega svo mikið að gera á daginn að lítill tími gæfist til dagbókarskrifa ...
Börnin völdu líka álegg á kvöldkaffibrauðið og safategund með en í kvöldkaffi er ýmist smurt brauð eða ávextir.
Svo var komið að fyrsta kaffitímanum en boðið var upp á gómsæta, heimabakaða skúffuköku með kaffinu ... Það féll heldur betur í góðan jarðveg.
Útisvæðið var opið eftir kaffi, enda fínasta veður, ekki hlýtt kannski en sólin var farin að skína. Þau sem kusu að vera úti voru bara vel klædd og hoppuðu sér til hita á trampólíninu.
Nokkur börn fóru í Spilaborg sem er alveg dásamlegur staður, fullur af bókum, blöðum, púslum, spilum og dóti, endalaust hægt að leika þar og hafa það kósí ... þótt yfirleitt ríki eintómt fjör. Íþróttahúsið var líka opið en þar er fjöldi skemmtilegra leiktækja. Svo var farið á milli svæða - bara eins og hver og einn vildi.
Þemalitur tímabilsins er grænn - sem þýðir að einn dag í vikunni reyna allir að vera í einhverju grænu fatakyns og verða þannig allan daginn.
Kvöldmaturinn var heldur betur góður, eða kjöt og spagettí sem rann aldeilis hratt niður í svanga magana. Börnin borðuðu ekki vel ... heldur MIKIÐ!
Svo var haldið í sundlaugina - en fyrsta kvöldið er sundlaugin alltaf opin og flestir völdu sér að fara þangað og nutu þess líka að sitja í heitu pottunum. Mjög slakandi og gott. Veðurspáin fyrir Kleppjárnsreyki er bara sæmileg, eða 6 stiga hiti um miðjan dag á morgun, skýjað með köflum, eins og veðurfræðingarnir orða það - sem þýðir að það verður sól með köflum, ekki sköflum. Svo á aldeilis að hlýna um helgina - eins gott, það verður húllumhædagur á laugardaginn.
Eftir hressandi sundið var komið að kvöldkaffinu, eða ávöxtum, og eftir að börnin voru komin upp í var lesin kvöldsaga. Mögulega notaði einhver tækifærið þarna og skrifaði ævintýri dagsins í dagbókina sína ...
Sirrý tók við af umsjónarmönnunum þegar flestir voru komnir í ró og passaði upp á mannskapinn. Nýr ævintýradagur fram undan.
Myndir frá deginum er að finna á www.sumarbudir.is, smellið á myndir og efst er hlekkur sem liggur að þeim.
Fleiri fréttir á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.5.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 91091
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar