Frá Frakklandi og Noregi ... en EKKERT frá Hafnarfirði!

NýkominSumarbúðirHópur stórskemmtilegra krakka kom í Ævintýraland í gær. Fyrst komu þau sem voru keyrð til okkar og svo kom rútan. Við vöxum aldrei upp úr því að vera ógurlega spennt á komudögum barnanna, enda kannski spenningurinn í þeim svo smitandi. Smile

Börnin byrjuðu á því að skella farangrinum inn á herbergin og fóru svo í sýningarrúnt með umsjónarmanninum en hver hópur hefur sinn eigin góða og skemmtilega umsjónarmann allt tímabilið.

Eftir að hafa skoðað sumarbúðirnar frá kjallara til rjáfurs (svona nánast) og allt útisvæðið líka (eða landareign okkar, eins og einn strákurinn orðaði það) var hægt að fara að koma sér notalega fyrir inni á herbergjum. Sum börnin taka bangsa með sér í sumarbúðirnar eða jafnvel ljósmynd (foreldrar, afar, ömmur, gæludýr) sem hægt er að stilla upp og finnst það setja heimilsbrag á allt.

Boðið var upp á skúffuköku í kaffinu og melónur á eftir. Þetta rann ljúflega niður og mikið var spjallað. Hóparnir náðu vel saman.

SumarbúðirSundÁ eftir var haldið í flotta íþróttahúsið þar sem fór fram kynning á starfsfólki og námskeiðum. Það kom mikið á óvart hversu mörg börn völdu að fara í kvikmyndagerð ... grín. Yfirleitt er þetta vinsælasta námskeiðið og var það sannarlega þetta tímabilið líka. Fleiri námskeið eru í boði í sumarbúðunum; listaverkagerð, leiklist, grímugerð, dans, söngur, íþróttir. Stundum eru einhver námskeið sameinuð (eins og leiklist og grímugerð eða grímugerð og myndlist ...) og það er líka mjög gaman.

Börnin eru á þessum námskeiðum í tvo tíma á dag, yfirleitt frá kl. 14-16, nema á húllumhædeginum þegar þau eru færð fyrir hádegi. Þau búa til listaverk, semja og æfa dans, gera handrit að stuttmynd sem er tekin upp og fleira og fleira og afraksturinn er sýndur á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið.

Fram að kvöldmat voru börnin á útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsi. Þau fóru eiginlega bara inn í Spilaborg eða íþrótthús til að kæla sig ... já, svo köllum við okkur ÍS-land! Úti var steikjandi hiti og mikil sól, sannkallað Kleppjárnsreykjaveður eins og það gerist best.

Í kvöldmatinn var kjöt og spagettí og það rann ekki bara vel, heldur hratt ofan í mannskapinn.

Síðan var sund í boði og það þótti nú ekki leiðinlegt að svamla í yndislegri útilaug í góða veðrinu og setjast í heitan pott inn á milli. Algjörar lúxussumarbúðir ... og mjög alþjóðlegar líka. Svona nánast. Nú er t.d. þrjú börn frá Frakklandi, þau eru íslensk en búsett ytra, og tala stundum frönsku sín á milli. Þau eru sjö og níu ára og mjög dugleg. Við erum líka með stelpu sem er búsett í Noregi og myndi án efa tala norsku fyrir okkur ef við bæðum hana um það. Tounge

Hér eru líka börn frá ýmsum stöðum af landinu, eins og Vestmannaeyjum, Siglufirði, Hvammstanga, Bifröst, Borgarnesi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Vogum, Grindavík, svo fátt eitt sé talið og svo eru Reykvíkingar í meirihluta eins og alltaf, enda er höfuðborgin okkar stærst. Að þessu sinni er ekkert barn frá Hafnarfirði sem er sérlega einkennilegt ... en þeim mun fleiri á næsta tímabili. Smile

SundFjör í sundiAlgjörlega óvænt hittust hérna pennavinkonur sem höfðu kynnst á Facebook og einhverra hluta vegna vissu þær ekki hvor af annarri í Ævintýralandi. Önnur býr á Siglufirði og hin í Reykjavík.

Eftir kvöldsundið borðuðu börnin ávexti í tonnatali og fóru svo í bólið. Umsjónarmenn lásu byrjunina á framhaldssögu fyrir hópinn sinn en kvöldlestur er frábært svefnmeðal. Yfirleitt er lesið lengi fyrsta kvöldið þar sem erfiðast er að sofna þá fyrir spenningi.

Þetta er frábær hópur góðra og skemmtilegra barna og við hlökkum einstaklega mikið til að verja vikunni með þeim.

P.s. Þegar Síminn hefur lokið viðgerð hjá sér ætti okkur að takast að setja inn myndir frá fyrsta deginum og einnig síðasta degi tímabilsins á undan! Sérlega fúl bilun ...

P.s. 2: VIÐBÓT - VIÐBÓT: Tókst að setja nokkrar myndir í bloggfærsluna en myndir dagsins birtast vonandi innan tíðar á heimasíðunni, sumarbudir.is. Viðgerð stendur sem sagt enn yfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög gaman að fylgjast með, virðist vera sannkallað ævintýraland. Ég vona að dóttir okkar sé að fíla sig vel. Hlakka til að sja myndirnar. Fylgjumst vel með á netinu.

kveðja

Guðrún og Gulla, mæður Soffíu Gullfisk.

Guðrún og Gulla (IP-tala skráð) 15.7.2010 kl. 22:02

2 identicon

Ég vona að krakkarnir frá Frakklandi séu dugleg að æfa íslenskuna sína:) Gaman að geta fylgst með hérna, kær kveðja.

Kristín "franska" mamma (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 00:14

3 identicon

Hér í Garðabæ bíðum við Syrpa spenntar eftir frekari fréttum úr sumarbúðunum. Erum alveg vissar um að Oddný Þóra gefur sér varla tíma til að sofa. Það má gjarnan láta Oddnýju vita að Syrpa er komin heim og er hress og kátur hundur núna.

Bestu keðjur úr Garðabænum.

Vala og Syrpa (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 06:56

4 identicon

Spennandi ad fà ad fylgjast med thvi sem krakkarnir eru ad gera.  Mynna thau frönsku à ad à islandi tölum vid islensku.  Hlakka til ad sjà myndir.

Kvedja, Brynhildur "hin franska mamman"

Brynhildur (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 07:10

5 identicon

Skv. frábærri mynd af Elmari í sundi, er varla ástæða til að hringja og kanna hvernig honum líki vistin.  Amma Kolla í Garðabæ

Kolbrún Viggósdóttir (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 13:01

6 identicon

Gaman að skoða bloggið ykkar og sjá myndirnar að öllum börnunum..Ég sé að vinirnir Teddi og Einar eru að hafa voða gaman..Flott mynd að þeim...Hlakka til að sjá fleiri myndir...Bestu kveðjur frá Breiðholtinu..kv. Mamma Einars Smára

Kristín mamma Einars Smára (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 90772

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband